Hvernig má nýta nýja tækni við undirbúning framboða stjórnmálasamtaka?

Vinnuhópnum er ætlað að skapa grundvöll fyrir setningu reglna um form framboðslista og meðmælendalista stjórnmálasamtaka og gera samkeyrslu lögboðinna upplýsinga um frambjóðendur í mismunandi kjördæmum mögulega áður en yfirkjörstjórnir skera úr um hvort listar séu gallalausir.

Meðal þess sem vinnuhópurinn lítur til er hvernig nýta megi nýja tækni og miðla með því til að mynda að safna rafrænt meðmælendum með framboðum og hvernig staðreyna megi hvort meðmælendur eigi kosningarrétt og hafi einungis mælt með einum framboðslista. Með því að bjóða fram slíka tækni er stefnt að því að stjórnmálasamtökum verði gert auðveldara að tilkynna yfirkjörstjórnum framboð sín og um leið að gera þau ábyrg fyrir því að viðeigandi upplýsingar um frambjóðendur og meðmælendur séu réttar.

Slík tækni mundi á svipaðan hátt nýtast þeim sem byðu sig fram til forseta þegar þeir kölluðu eftir meðmælendum við kjör forseta Íslands.