Kosningakærur og meðferð þeirra

Vinnuhópnum er ætlað að gera heildstæða athugun á meðferð mála við framkvæmd og gildi kosninga og bera saman við hliðstætt fyrirkomulag í nágrannalöndunum. Sérstök sjónarmið eiga við um kosningar til Alþingis, en samkvæmt stjórnarskránni sker Alþingi sjálft úr um gildi kosninga og um kjörgengi þingmanna. Þegar Alþingi kemur fyrst saman eftir kosningar kýs það sérstaka nefnd, kjörbréfanefnd. Hlutverk hennar er að prófa kjörbréf og kosningu nýkjörinna þingmanna og varaþingmanna, þar með talið að úrskurða um ágreining sem komið hefur upp hjá yfirkjörstjórnum um gildi einstakra atkvæða. Álit kjörbréfanefndar felur í sér tillögu til þingsins um það hvort kosning og kjörgengi þingmanns teljist gild.

Kærur út af gildi sveitarstjórnarkosninga skulu afhentar sýslumanni innan sjö daga frá því að úrslitum kosninga var lýst. Sýslumaður skipar þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefnið. Úrskurðum nefndarinnar má skjóta til innanríkisráðuneytis. Kærum út af gildi kjörs forseta Íslands verður skotið til Hæstaréttar og kærum út af gildi þjóðaratkvæðagreiðslna verður skotið til landskjörstjórnar.

Meðal þess sem er til athugunar hjá vinnuhópnum er hvort koma megi á fót sjálfstæðri úrskurðarnefnd til þess að úrskurða um gildi kosninga og ágreiningsmál sem upp geta komið við undirbúning og framkvæmd kosninga. Að óbreyttri stjórnarskrá verða slíkar reglur að taka mið af stöðu Alþingis.