Ferill 632. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1088  —  632. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2015, frá 25. febrúar 2015, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB frá 25. október 2012 um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2015, frá 25. febrúar 2015, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB frá 25. október 2012 um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum.
    Eins og heitið ber með sér er í gerðinni kveðið á um tiltekna leyfilega notkun á svokölluðum munaðarlausum verkum, þ.e. verkum sem njóta höfundaréttar en höfundur þeirra er óþekktur eða ekki er vitað hvar hann heldur sig og því ekki unnt að leita heimildar til nota verkanna. Tilskipuninni er ætlað að gera menningarstofnunum Evrópuríkja kleift að gera stafræn eintök af munaðarlausum verkum, enda sé þá ekki unnt að leita samþykkis rétthafa, til að tryggja að ekki sé gloppa í menningararfi Evrópu í stafrænu formi.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir, en þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en jafnframt getur Alþingi heimilað stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir og 7. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sem kveður á um að stjórnskipulegum fyrirvara skv. 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæði beri að aflétta með þingsályktun, er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB frá 25. október 2012 um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum.
    Tilskipunin kveður á um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum, þ.e. verkum sem njóta verndar höfundaréttar en höfundur þeirra er óþekktur eða ekki er vitað hvar hann heldur sig og því ekki unnt að leita heimildar höfundar til nota verkanna. Víða í Evrópu vinna menningarstofnanir að því að stafvæða verk í söfnum sínum til þess að varðveita þau og gera þau aðgengileg á netinu. Stór hluti þeirri verka sem þar finnst er háður höfundarétti og kallar stafvæðing því á samþykki rétthafa. Þegar verk teljast munaðarlaus er ekki unnt að leita heimildar rétthafa til þess að stafvæða verkin og gera þau aðgengileg. Tilskipuninni um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum er ætlað að leysa þennan vanda og gera menningarstofnunum Evrópuríkja kleift að gera stafræn eintök af slíkum verkum til að tryggja að ekki sé gloppa í menningararfi Evrópu í stafrænu formi. Til að ná því markmiði heimilar tilskipunin ákveðnum menningarstofnunum að nota verk án heimildar rétthafa ef komist er að þeirri niðurstöðu eftir ítarlega leit að viðkomandi verk sé munaðarlaust.
    Tilskipunin hefur m.a. að geyma skilgreiningu á því hvað teljist munaðarlaust verk, hvernig staðið skuli að ítarlegri leit að rétthöfum áður en hægt er að skilgreina verk sem munaðarlaust, gagnkvæma viðurkenningu milli EES-ríkja á ákvörðun munaðarlausra verka og hvernig rétthafar geti bundið enda á að verk sé skilgreint sem munaðarlaust. Einnig hefur tilskipunin að geyma ákvæði um þær stofnanir sem hún tekur til og hvernig viðkomandi stofnanir mega nota munaðarlaus verk, en fram kemur að tilskipunin tekur til almenningsbókasafna, menntastofnana, safna, skjalasafna, varðveislustofnana kvikmynda og hljóðrita, ásamt útvarpsstöðvum sem veita opinbera þjónustu. Not umræddra verka eru einungis heimil ef þau eru vegna markmiða viðkomandi stofnunar sem varða hlutverk hennar í almannaþágu, svo sem not vegna aðgangs í menntunar- eða menningarskyni.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2012/28/ESB hér á landi kallar á breytingar á höfundalögum nr. 73/1972, með áorðnum breytingum, enda felst í tilskipuninni undanþága frá einkarétti höfundar. Gert er ráð fyrir því að mennta- og menningarmálaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á höfundalögum á yfirstandandi þingi.
    Ekki er talið að innleiðing tilskipunarinnar muni hafa í för með sér veruleg útgjöld eða umsýslu. Útnefna þarf tiltekin landsyfirvöld til að tryggja að til staðar sé ákveðið ferli til að taka á móti upplýsingum frá þeim stofnunum sem hyggjast nota munaðarlaus verk og til að áframsenda upplýsingar til miðlægs evrópsks gagnagrunns um slík verk. Þá mega stofnanir sem hyggjast nota munaðarlaus verk vænta nokkurrar umsýslu vegna þeirra, sérstaklega í tengslum við ítarlega leit og miðlun upplýsinga um not og stöðu verkanna. Þeim er hins vegar heimilt að hafa einhverjar tekjur af notum munaðarlausra verka í þeim tilgangi að koma til móts við kostnað vegna stafvæðingu þeirra og við að gera þau aðgengileg almenningi.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 29/2015

frá 25. febrúar 2015

um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN,

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        Fella ber inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB frá 25. október 2012 um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum ( 1 ).

2)        Gerðirnar, sem eru skráðar undir fyrirsögninni „GERÐIR SEM SAMNINGSAÐILAR TIL TAKA MIÐ AF“, skulu endurtölusettar af hagkvæmniástæðum.

3)        XVII. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:


1. gr.


Ákvæði XVII. viðauka við EES-samninginn breytist sem hér segir:

1.        Liðir 10 (ályktun ráðsins 92/C 138/01) og 11 (orðsending framkvæmdastjórnarinnar frá 27. október 1992) undir fyrirsögninni „GERÐIR SEM SAMNINGSAÐILAR TIL TAKA MIÐ AF“ skulu endurtölusettir sem liðir 1 og 2.

2.        Eftirfarandi bætist við á eftir lið 9h (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/95/EB):

        „10.    32012 L 0028: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB frá 25. október 2012 um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum (Stjtíð. ESB L 299, 27.10.2012, bls. 5).

                    Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                     a)      EFTA-ríkin skulu taka þátt í einum rafrænum gagnagrunni sem er aðgengilegur almenningi og samhæfingarskrifstofa innri markaðarins kom á fót og um getur í 6. mgr. 3. gr. EFTA-ríkin skulu standa straum af kostnaði við þýðingu á íslensku og norsku, eftir því sem þörf er á.

                     b)      Að því er varðar EFTA-ríkin, skal dagsetning beitingar sem um getur í 8. gr. vera gildistökudagur ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2015 frá 25. febrúar 2015.“

2. gr.

Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2012/28/ESB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 26. febrúar 2015, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.


Gjört í Brussel 25. febrúar 2015.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Gianluca Grippa

formaður.

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2012/28/ESB
frá 25. október 2012
um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 1. mgr. 53. gr., 62. gr. og 114. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins,
eftir að hafa lagt drög að lagagerð fyrir þjóðþingin,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópusambandsins ( 1 ),
í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)        Í almenningsbókasöfnum, menntastofnunum og söfnum, ásamt skjalasöfnum, varðveislustofnunum mynd- og hljóðefnis og útvarpsstofnunum í almannaþágu, sem komið er á í aðildarríkjunum fer nú fram stafvæðing safnkosts og skjalasafna þeirra í stórum stíl svo að til verði stafræn bókasöfn í Evrópu. Þau leggja sitt af mörkum til varðveislu og útbreiðslu menningararfleifðar Evrópubúa, sem er einnig mikilvæg fyrir stofnun stafrænna bókasafna í Evrópu, svo sem Europeana. Tækniþekking fyrir stórfellda stafvæðingu prentaðs efnis og fyrir leit og atriðaskráningu eykur rannsóknarvirði safnkosts bókasafnanna. Með stofnun stórra bókasafna á Netinu er greitt fyrir rafrænum leitar- og uppgötvunartækjum sem leiða til þess að vísindamenn og háskólamenn, sem annars hefðu orðið að láta sér nægja að nota hefðbundnari og hliðrænar leitaraðferðir, finna nú ný tækifæri til uppgötvana.
2)        Nauðsyn þess að stuðla að frjálsu flæði þekkingar og nýsköpunar á innri markaðinum er mikilvægur efnisþáttur í stefnumörkuninni fyrir Evrópu 2020, eins og segir í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar með fyrirsögninni „Evrópa 2020: stefnumörkun um hugvitssaman og sjálfbæran hagvöxt fyrir alla“, sem felur í sér eitt af forystuverkefnum þróunar stafrænnar áætlunar fyrir Evrópu.
3)        Lykilaðgerð stafrænnar áætlunar fyrir Evrópu, eins og hún er sett fram í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar með yfirskriftinni „Stafræn áætlun fyrir Evrópu“, er að smíða lagaramma til að auðvelda stafvæðingu og útbreiðslu verka og annars efnis sem nýtur verndar höfundaréttar eða skyldra réttinda og þar sem enginn rétthafi er auðkenndur - svonefndra munaðarlausra verka - eða þar sem rétthafinn, þegar tekist hefur að auðkenna hann, finnst ekki. Þessi tilskipun beinir sjónum að sértækum vandamálum við lagalega ákvörðun á stöðu munaðarlausra verka og afleiðingum hennar með tilliti til leyfilegra notenda og heimilaðra afnota af verkum eða hljóðritum sem talið er að séu munaðarlaus.
4)        Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á sértækar lausnir sem verið er að þróa í aðildarríkjunum til að fjalla um stærri vandamál stórfelldrar stafvæðingar, s.s. í tilvikum verka sem ekki er lengur hægt að nálgast á almennum markaði. Slíkar lausnir taka tillit til sérvirkni ólíkra tegunda inntaks og mismunandi notenda og byggja á samstöðu viðkomandi hagsmunaaðila. Viljayfirlýsing um helstu meginreglur um stafvæðingu og tiltækileika verka sem ekki er lengur hægt að nálgast á almennum markaði, sem fulltrúar evrópskra bókasafna, höfundar, útgefendur og innheimtusamtök rétthafa undirrituðu 20. september 2011 og framkvæmdastjórnin vottaði, fylgir einnig þessari nálgun. Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á hvort viljayfirlýsingin, sem hvetur aðildarríkin og framkvæmdastjórnina til að tryggja að frjálsir samningar, sem gerðir voru á milli notenda, rétthafa og samtaka rétthafa, um að veita leyfi til notkunar á höfundaréttarlausum verkum á grundvelli meginreglna sem þar var að finna, njóti hagræðis frá tilskildri réttarvissu í innlendu samhengi og í málum sem ná yfir landamæri.
5)        Höfundaréttur er efnahagsleg undirstaða skapandi atvinnugreina þar eð hann örvar nýsköpun, sköpun, fjárfestingu og framleiðslu. Stórfelld stafvæðing og útbreiðsla verka er þannig ein leið til að vernda menningararfleifð Evrópubúa. Höfundaréttur er mikilvægt tæki til að tryggja að skapandi geirinn njóti ávinningsins sem hlýst af vinnu innan hans.
6)        Í einkarétti rétthafa til að gera eintök af verkum sínum og annars verndaðs efnis og að gera slíkt aðgengilegt almenningi, eins og samræmt var í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/ EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu ( 1 ), er gerð krafa um að rétthafar veiti samþykki sitt áður en að verk þeirra eða annað verndað efni verði stafvætt eða gert aðgengilegt almenningi.
7)        Ef um er að ræða munaðarlaus verk er ómögulegt að fá slíkt fyrirframsamþykki fyrir athöfnum sem fela í sér eintakagerð eða að þau verk verði gerð aðgengileg almenningi.
8)        Ólík nálgun aðildarríkjanna við viðurkenningu á stöðu munaðarlausra verka gæti hamlað starfsemi innri markaðarins og notkun munaðarlausra verka og aðgengi að þeim yfir landamæri. Þessi ólíka nálgun getur leitt til takmarkana á frjálsum vöruflutningum, og þjónustustarfsemi sem samanstendur af menningarlegu inntaki. Því er viðeigandi að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á slíkri stöðu þar sem slík gagnkvæm viðurkenning mun heimila aðgang að munaðarlausum verkum í öllum aðildarríkjunum.
9)        Sameiginleg nálgun við að ákveða stöðu munaðarlausra verka og leyfilega notkun þeirra er einkum nauðsynleg til að tryggja réttarvissu á innri markaðnum að því er varðar notkun almenningsbókasafna, menntastofnana og safna, ásamt skjalasöfnum, varðveislustofnana mynd- og hljóðefnis og útvarpsstofnana í almannaþágu, á munaðarlausum verkum.
10)        Munaðarlaus verk finnast á meðal kvikmyndaverka eða hljóð- og myndmiðlaverka og hljóðrita í skjalasöfnum og útvarpsstofnunum í almannaþágu og eru framleidd af þeim. Rétt þykir, með tilliti til sérstakrar stöðu útvarpsrekenda sem framleiðenda hljóðrita og hljóð- og myndmiðlunarefnis og nauðsyn þess að innleiða ráðstafanir til að takmarka fyrirbærið munaðarlaus verk í framtíðinni, að setja tímamörk á beitingu þessarar tilskipunar á verk og hljóðrit í skjalasöfnum útvarpsstofnana.
11)        Í þessari tilskipun teljast kvikmyndaverk, hljóð- og myndmiðlaverk og hljóðrit sem varðveitt eru í skjalasöfnum útvarpsstofnana í almannaþágu og voru framleidd af þeim, einnig vera kvikmyndaverk og hljóð- og myndmiðlaverk og hljóðrit sem slík samtök létu framleiða til eigin útsendinga eða útsendinga með samframleiðendum úr hópi útvarpsstofnana í almannaþágu. Kvikmyndaverk og hljóð- og myndmiðlaverk og hljóðrit, sem varðveitt eru í skjalasöfnum útvarpsstofnana í almannaþágu og voru ekki framleidd af eða að undirlagi slíkra stofnana, sem hafa þó heimild til að nota þau samkvæmt nytjaleyfissamningi, skulu ekki falla innan gildissviðs þessarar tilskipunar.
12)        Þessi tilskipun skal, með skírskotun til alþjóðlegrar háttvísi, aðeins gilda um verk og hljóðrit sem eru fyrst gefin út á yfirráðasvæði aðildarríkis eða, þegar engin útgáfa hefur átt sér stað, verið fyrst send út á yfirráðasvæði aðildarríkis eða, ef hvorki útgáfa né útsending hefur átt sér stað, gerð þar aðgengileg almenningi fyrir tilstuðlan haghafa þessarar tilskipunar með samþykki rétthafa. Í síðasta tilfellinu skal tilskipuninni aðeins beitt að því tilskildu að ástæða sé til að ætla að rétthafarnir myndu ekki andmæla því að notkunin sé heimiluð samkvæmt þessari tilskipun.
13)        Áður en verk eða hljóðrit getur talist munaðarlaust verk skal í góðri trú leita ítarlega að rétthöfum verksins eða hljóðritsins, þ.m.t. rétthöfum á verkum og öðru vernduðu efni sem er greypt eða fellt inn í verkið eða hljóðritið. Aðildarríkjunum skal vera heimilt að kveða á um að þessi ítarlega leit verði gerð á vegum stofnananna sem um getur í þessari tilskipun eða annarra stofnana. Þessar aðrar stofnanir mega taka gjald fyrir þá þjónustu að framkvæma ítarlega leit.
14)        Rétt er að samræma reglur um ítarlega leit til að tryggja hátt verndarstig á höfundarétti og tengdum rétti í Sambandinu. Ítarleg leit skal fela í sér að leitað verði til aðila, stofnana, gagnagrunna eða annarra staða sem veita upplýsingar um verkin og annað verndað efni, sem aðildarríkin, þar sem ítarlega leitin fer fram, ákvarða í samræmi við þessa tilskipun. Í því skyni gætu aðildarríkin vísað til leiðbeininga um ítarlega leit sem samþykktar voru af vinnuhópi háttsettra embættismanna um stafræn bókasöfn sem komið var á fót á vegum i2010 framtaksverkefnisins um stafræn bókasöfn.
15)        Í því skyni að forðast tvíverknað við leitina skal ítarleg leit fara fram í aðildarríkinu þar sem verkið eða hljóðritið var fyrst gefið út eða, í tilvikum þar sem engin útgáfa átti sér stað, þar sem það var fyrst sent út. Ítarleg leit, að því er varðar framleiðanda kvikmyndaverka eða hljóð- og myndmiðlaverka með höfuðstöðvar eða fast aðsetur í aðildarríki, skal fara fram í því aðildarríki. Í tilfelli kvikmyndaverka eða hljóð- og myndmiðlaverka, sem framleiðendur er hafa staðfestu í ólíkum aðildarríkjum framleiddu sameiginlega, skal ítarlega leitin vera framkvæmd í hverju þessara aðildarríkja. Að því er varðar verk og hljóðrit, sem hafa hvorki verið útgefin né send út en haghafar þessarar tilskipunar hafa gert aðgengileg almenningi með samþykki rétthafa, skal ítarleg leit fara fram í aðildarríkinu þar sem stofnunin, sem gerði verkið eða hljóðritið aðgengilegt almenningi með samþykki rétthafans, hefur aðsetur. Ítarlegar leitir að rétthöfum verka og annars verndaðs efnis sem er greypt eða fellt inn í verk eða hljóðrit skulu fara fram í því aðildarríki þar sem ítarleg leit að verki eða hljóðriti, sem inniheldur hið greypta eða innfellda verk eða annað verndað efni, fer fram. Styðjast skal við tiltækar upplýsingar í öðrum löndum ef vísbendingar eru um að viðeigandi upplýsingar um rétthafa sé að finna í viðkomandi löndum. Framkvæmd ítarlegra leita getur búið til margs konar tegundir upplýsinga, s.s. leitarskrá og leitarniðurstöður. Geyma skal afrit af skránni yfir leitina svo að hlutaðeigandi stofnun geti fært sönnur á að um ítarlega leit hafi verið að ræða.
16)        Aðildarríkin skulu tryggja að hlutaðeigandi stofnanir haldi skrár um ítarlegar leitir þeirra og að niðurstöðum slíkra leita, sem samanstanda einkum af niðurstöðum um að verk eða hljóðrit skuli vera álitin munaðarlaus verk í skilningi þessarar tilskipunar, ásamt upplýsingum um breytingu á stöðu og notkun þessara stofnana á munaðarlausum verkum, verði safnað saman og þær gerðar aðgengilegar öllum almenningi, einkum með því að skrá viðkomandi upplýsingar í gagnagrunn á Netinu. Rétt þykir, einkum í ljósi samevrópskra þátta og til að forðast tvíverknað, að kveða á um stofnun sérstaks gagnagrunns á Netinu fyrir Sambandið til að geyma þessar upplýsingar og gera þær aðgengilegar öllum almenningi á gagnsæjan hátt. Þetta getur hjálpað bæði stofnunum sem framkvæma leitir með ítarlegum hætti og auðveldað rétthöfunum að nálgast slíkar upplýsingar. Gagnagrunnurinn gæti einnig leikið stórt hlutverk í að hindra og stöðva hugsanleg brot á höfundarétti, einkum þegar um er að ræða breytingar á stöðu munaðarlausra verka í verkum og hljóðritum. Samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 386/2012 ( 1 ), er samhæfingarskrifstofu innri markaðarins („skrifstofunni“) falið að sinna tilteknum verkefnum og starfsemi sem er fjármögnuð með eigin fjárveitingum og beinist að því að auðvelda og styðja baráttu landsbundinna yfirvalda, einkageirans og stofnana Sambandsins gegn brotum á hugverkaréttindum, þ.m.t. forvarnir gegn þeim.
        Þessi verkefni fela einkum í sér, skv. g-lið 1. mgr. 2. gr. þeirrar reglugerðar, að leggja til aðferð sem hjálpar til við að bæta rafræn skipti á viðkomandi upplýsingum á milli hlutaðeigandi yfirvalda aðildarríkja og efla samstarf á milli þessara yfirvalda. Því er rétt að fela skrifstofunni að koma á fót og stjórna evrópskum gagnagrunni sem inniheldur upplýsingar um munaðarlaus verk sem um getur í þessari tilskipun.
17)        Margir rétthafar geta verið að ákveðnu verki eða hljóðriti og þau geta sjálf falið í sér önnur verk eða verndað efni. Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á réttindi auðkenndra og staðsettra rétthafa. Ef a.m.k. einn rétthafi hefur verið auðkenndur og staðsettur skal verk eða hljóðrit ekki vera talið munaðarlaust verk. Aðeins skal heimila haghöfum þessarar tilskipunar að nota verk eða hljóðrit eins eða fleiri rétthafa sem hafa ekki verið auðkenndir eða staðsettir, ef rétthafarnir sem hafa verið auðkenndir og staðsettir hafa heimilað þeim að gera eintök af viðkomandi efni og gera það aðgengilegt almenningi, eins og fellur undir 2. og 3. gr. tilskipunar 2001/29/EB, eftir því sem við á, þ.m.t. verk rétthafa og annað verndað efni þeirra sem er greypt eða fellt inn í önnur verk eða hljóðrit. Rétthafar sem hafa verið auðkenndir og staðsettir geta aðeins veitt heimild fyrir slíku með tilliti til réttinda sem þeir halda sjálfir, annaðhvort vegna þess að réttindin eru þeirra eða vegna þess að þau voru framseld til þeirra, og þeir skulu ekki getað heimilað, samkvæmt tilskipun þessari, neina notkun fyrir hönd rétthafa sem hafa hvorki verið auðkenndir né staðsettir. Þegar rétthafar, sem hafa hvorki verið auðkenndir né staðsettir áður, koma með samsvarandi hætti fram til að krefjast réttinda sinna yfir verki eða hljóðriti, getur lögleg notkun haghafa þá aðeins haldið áfram ef þessir rétthafar veita heimild fyrir því samkvæmt tilskipun 2001/29/EB, með tilliti til réttinda sem þeir hafa.
18)        Rétthafar skulu eiga rétt á að afturkalla það að verk þeirra teljist munaðarlaus með því að koma fram og krefjast réttinda sinna á verkinu eða öðru vernduðu efni. Rétthafar sem afturkalla stöðu verka sem munaðarlausra eða annars efnis skulu fá sanngjarnar bætur fyrir notkun á verkum eða öðru vernduðu efni þeirra sem átt hefur sér stað samkvæmt tilskipun þessari og skal aðildarríkið, þar sem stofnanirnar sem notuðu munaðarlausa verkið hafa staðfestu, ákvarða þær. Aðildarríkjunum skal vera frjálst að ákvarða þær kringumstæður þegar skipuleggja má slíkar bótagreiðslur, þ.m.t. hvenær þær koma á gjalddaga. Að því er varðar ákvörðun um hvað teljist sanngjarnar bætur skal m.a. taka tilhlýðilegt tillit til markmiða aðildarríkjanna um eflingu menningar, notkun umræddra stofnana á efninu sem ekki er í fjárhagslegum tilgangi og sem er í tengslum við hlutverk þeirra við að veita þjónustu í almannaþágu, s.s. að efla menntun og miðla menningu, og þann hugsanlega skaða sem rétthafi verður fyrir.
19)        Ef verk eða hljóðrit hefur ranglega verið skilgreint sem munaðarlaust verk að lokinni leit sem ekki var ítarleg, skulu tiltæk úrræði í löggjöf aðildarríkjanna við höfundaréttarbrotum áfram vera til reiðu, í samræmi við viðkomandi innlend ákvæði og lög Sambandsins.
20)        Aðildarríkin skulu kveða á um undanþágu eða takmörkun, til viðbótar þeim sem kveðið er á um í 5. gr. tilskipunar 2001/29/EB, í því skyni að efla menntun og stuðla að útbreiðslu menningar. Þessi undanþága eða takmörkun skal heimila tilteknum stofnunum, sem um getur í c-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2001/29/EB, og varðveislustofnunum mynd- og hljóðefnis sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni og útvarpsstofnunum í almannaþágu að gera eintök af munaðarlausum verkum og gera þau aðgengileg almenningi í skilningi þeirrar tilskipunar, að því tilskildu að slík notkun samræmist almannahagsmunahlutverki þeirra, einkum við varðveislu, endurheimt og framboð á safnkosti þeirra, þ.m.t. stafrænum safnkosti, til menningar- og menntatengdrar notkunar. Varðveislustofnanir mynd- og hljóðefnis skulu, að því er varðar þessa tilskipun, ná til allra stofnana sem aðildarríkin hafa tilnefnt til að safna, skrásetja, varðveita og lagfæra kvikmyndir og önnur hljóð- og myndmiðlaverk eða hljóðrit sem eru hluti af menningararfleifð þeirra. Útvarpsstofnanir í almannaþágu skulu, að því er varðar tilskipun þessa, ná yfir útvarpsstofnanir í almannaþágu sem hvert aðildarríki hefur falið þeim, skilgreint og skipulagt. Undanþágan eða takmörkunin, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, sem heimilar notkun munaðarlausra verka er með fyrirvara um undanþágur og takmarkanir sem kveðið er á um í 5. gr. tilskipunar 2001/29/EB. Henni má aðeins beita í tilteknum undantekningartilvikum sem stríða ekki gegn eðlilegri hagnýtingu verksins eða annars verndaðs efnis og skerða ekki með ósanngjörnum hætti lögmæta hagsmuni rétthafa.
21)        Í því skyni að hvetja til stafvæðingar skal heimila haghöfum þessarar tilskipunar að afla tekna, í tengslum við notkun þeirra á munaðarlausum verkum samkvæmt þessari tilskipun, til að ná markmiðunum varðandi hlutverk þeirra í almannaþágu, þ.m.t. með skírskotun til samstarfsverkefna opinberra aðila og einkaaðila.
22)        Hægt er að efla stafvæðingu menningararfleifðar Evrópubúa með samningsbundnu fyrirkomulagi í þeim skilningi að almenningsbókasöfnum, menntastofnunum og söfnum, ásamt skjalasöfnum, varðveislustofnunum mynd- og hljóðefnis og útvarpsstofnunum í almannaþágu, skal vera heimilt að gera samninga, með þá notkun í huga sem leyfð er samkvæmt tilskipun þessari, við fyrirtæki, sem hafa fjárhagslegan ávinning að markmiði, um stafvæðingu og um að gera munaðarlaus verk aðgengileg almenningi. Þessir samningar geta falið í sér fjárframlög af hálfu slíkra samstarfsaðila. Slíkir samningar skulu ekki setja takmarkanir á notkun haghafa þessarar tilskipunar á munaðarlausum verkum og skulu ekki veita samstarfsfyrirtækinu réttindi til að nota, eða stjórna notkun á munaðarlausum verkum.
23)        Í því skyni að bæta aðgang borgara Sambandsins að menningararfleifð Evrópubúa er einnig mikilvægt að tryggja að munaðarlaus verk sem hafa verið stafvædd og gerð aðgengileg almenningi í einu aðildarríki geti einnig verið gerð aðgengileg almenningi í öðru aðildarríki. Almenningsbókasöfn, menntastofnanir og söfn, ásamt skjalasöfnum, varðveislustofnunum mynd- og hljóðefnis og útvarpsstofnunum í almannaþágu, sem nota munaðarlaus verk til að ná markmiðum sínum er varða hlutverk þeirra í almannaþágu, skulu geta gert munaðarlausa verkið aðgengilegt almenningi í öðrum aðildarríkjum.
24)        Þessi tilskipun er með fyrirvara um fyrirkomulag í aðildarríkjunum er varðar réttindaumsýslu, s.s. samningskvaðir, lagalegar forsendur fyrir málsvari eða yfirfærslu, sameiginlega umsýslu eða svipað fyrirkomulag eða sambland af þessu, þ.m.t. fyrir stórfellda stafvæðingu.
25)        Þar sem aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar tilskipunar, þ.e. að tryggja réttarvissu að því er varðar notkun munaðarlausra verka, og því væri betur náð á vettvangi Sambandsins, vegna þess hve nauðsynlegt er að samræma reglur sem gilda um notkun munaðarlausra verka, er Sambandinu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við nálægðarregluna, eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná því markmiði.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Efni og gildissvið

1.     Tilskipun þessi varðar tiltekna notkun almenningsbókasafna, menntastofnana og safna, ásamt skjalasöfnum, varðveislustofnunum mynd- og hljóðefnis og útvarpsstofnunum í almannaþágu í aðildarríkjunum, á munaðarlausum verkum til þess að ná þeim markmiðum er varða hlutverk þeirra í almannaþágu.
2.     Tilskipun þessi gildir um:
a)     verk sem gefin eru út í formi bóka, fréttablaða, dagblaða, tímarita eða í öðru rituðu formi sem geymd eru í safnkosti almenningsbókasafna, menntastofnana eða safna, ásamt safnkosti skjalasafna eða varðveislustofnana mynd- og hljóðefnis,
b)     kvikmyndaverk eða hljóð- og myndmiðlaverk og hljóðrit sem geymd eru í safnkosti almenningsbókasafna, menntastofnana eða safna, ásamt safnkosti skjalasafna eða varðveislustofnana mynd- og hljóðefnis, og
c)     kvikmyndaverk eða hljóð- og myndmiðlaverk og hljóðrit sem útvarpsstofnanir í almannaþágu framleiddu til og með 31. desember 2002 og geymd eru í skjalasöfnum þeirra,
    sem eru vernduð af höfundarétti eða skyldum réttindum og voru fyrst gefin út í aðildarríki eða, ef ekki var um útgáfu að ræða, send út í aðildarríki.
3.     Tilskipun þessi gildir einnig um verk og hljóðrit sem um getur í 2. mgr. og hafa aldrei verið gefin út eða send út en stofnanirnar, sem um getur í 1. mgr., hafa gert aðgengileg almenningi með samþykki rétthafa, að því tilskildu að ástæða sé til að ætla að rétthafarnir myndu ekki andmæla notkuninni sem um getur í 6. gr. Aðildarríkin geta takmarkað beitingu þessarar málsgreinar við verk og hljóðrit sem hafa verið afhent þessum samtökum til vörslu fyrir 29. október 2014.
4.     Tilskipun þessi skal einnig gilda um verk og annað verndað efni sem er greypt eða fellt inn í önnur verk eða hljóðrit, sem um getur í 2. og 3. mgr., eða eru óaðskiljanlegur hluti þeirra.
5.     Tilskipun þessi hefur engin áhrif á fyrirkomulag varðandi réttindaumsýslu á landsvísu.

2. gr.

Munaðarlaus verk

1.     Verk eða hljóðrit er álitið munaðarlaust verk ef enginn af rétthöfum þessa verks eða hljóðrits hefur verið auðkenndur eða, jafnvel þó einn eða fleiri þeirra sé auðkenndur að enginn þeirra sé staðsettur, þrátt fyrir að ítarleg leit að rétthöfum hafi farið fram og verið skráð í samræmi við 3. gr.
2.     Þar sem fleiri en einn rétthafi er að verki eða hljóðriti og þeir hafa ekki allir verið auðkenndir eða, jafnvel þó þeir séu auðkenndir, ekki verið staðfestir eftir að ítarleg leit hefur farið fram og verið skráð í samræmi við 3. gr., má nota verkið eða hljóðritið í samræmi við þessa tilskipun að því tilskildu að allir rétthafarnir, sem hafa verið auðkenndir og staðsettir, hafi heimilað stofnunum, sem um getur í 1. mgr. 1. gr., í tengslum við réttindin sem þeir hafa, að gera eintök og að gera verkin aðgengileg almenningi, eftir því sem við á, sem ákvæði. 2. og 3. gr. tilskipunar 2001/29/EB ná yfir.
3.     Ákvæði 2. mgr. skulu ekki hafa áhrif á réttindi rétthafa, sem hafa verið auðkenndir og staðsettir, á verki eða hljóðriti.
4.     Ákvæði 5. gr. skulu gilda að breyttu breytanda um rétthafa sem hafa ekki verið auðkenndir og staðsettir í tengslum við verk sem um getur í 2. mgr.
5.     Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á innlend ákvæði um verk undir nafnleynd eða dulnefnum.

3. gr.

Ítarleg leit

1.     Í þeim tilgangi að ákveða hvort verk eða hljóðrit sé munaðarlaust verk skulu stofnanirnar, sem um getur í 1. mgr. 1. gr., tryggja að ítarleg leit fari fram í góðri trú, að því er varðar hvert verk eða annað verndað efni, með því að leita í viðeigandi heimildir er varða umræddan flokk verka og annars verndaðs efnis. Ítarleg leit skal fara fram áður en verkið eða hljóðritið er notað.
2.     Hvert aðildarríki skal ákvarða þær heimildir sem eru viðeigandi fyrir hvern hlutaðeigandi flokk verka eða hljóðrits, í samráði við rétthafa og notendur og skulu a.m.k. þær heimildir, sem skráðar eru í viðaukanum fyrir viðeigandi flokk, vera þar á meðal.
3.     Ítarleg leit skal fara fram í aðildarríkinu þar sem fyrsta útgáfa fór fram eða, ef ekki er um útgáfu að ræða, fyrsta útsending, nema í tilvikum kvikmyndaverka eða hljóð- og myndmiðlaverka þar sem framleiðandinn hefur höfuðstöðvar eða fast aðsetur í aðildarríki, skal ítarleg leit fara fram í því aðildarríki þar sem hann hefur höfuðstöðvar eða fast aðsetur.
Í tilvikum sem um getur í 3. mgr. 1. gr., skal ítarleg leit fara fram í aðildarríkinu þar sem stofnanirnar, sem gerðu verkið eða hljóðritið aðgengilegt almenningi með samþykki rétthafans, hafa staðfestu.
4.     Ef vísbendingar gefa til kynna að viðeigandi upplýsingar um rétthafa sé að finna í öðrum löndum, skal einnig leitað í viðeigandi heimildir í þeim löndum.
5.     Aðildarríkin skulu tryggja að stofnanirnar, sem um getur í 1. mgr. 1. gr., haldi skrár um ítarlegar leitir sínar og að þessi samtök veiti lögbærum landsyfirvöldum eftirfarandi upplýsingar:
a)     niðurstöður ítarlegra leita sem samtökin hafa framkvæmt og hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að verk eða hljóðrit sé álitið munaðarlaust verk,
b)     notkun stofnana á munaðarlausum verkum í samræmi við tilskipun þessa,
c)     allar breytingar, skv. 5. gr. á stöðu munaðarlausra verka á þeim verkum og hljóðritum sem stofnanirnar nota,
d)     viðeigandi upplýsingar um hvernig sé hægt að hafa samband við hlutaðeigandi stofnun.
6.     Aðildarríkin skulu grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að upplýsingarnar, sem um getur í 5. mgr., séu skráðar í einn rafrænan gagnagrunn sem er aðgengilegur almenningi og í umsjá samhæfingarskrifstofu innri markaðarins („skrifstofunnar“) í samræmi við reglugerð (ESB) nr. 386/ 2012. Þau skulu í því skyni framsenda þær upplýsingar til skrifstofunnar um leið og þær berast þeim frá stofnununum sem um getur í 1. mgr. 1. gr.

4. gr.

Gagnkvæm viðurkenning á stöðu munaðarlausra verka

Verk eða hljóðrit, sem er álitið munaðarlaust verk skv. 2. gr. í aðildarríki, skal álitið munaðarlaust verk í öllum aðildarríkjunum. Nota má það verk eða hljóðrit og gera það aðgengilegt í samræmi við þessa tilskipun í öllum aðildarríkjunum. Þetta gildir einnig um verk og hljóðrit, sem um getur í 2. mgr. 2. gr., að svo miklu leyti sem um er að ræða réttindi rétthafa sem hafa hvorki verið auðkenndir né staðsettir.

5. gr.

Lok á stöðu munaðarlausra verka

Aðildarríkin skulu tryggja að rétthafi verks eða hljóðrits sem talið er vera munaðarlaust verk hafi hvenær sem er möguleika á að afturkalla stöðu munaðarlauss verks á verkinu að svo miklu leyti sem það snýr að réttindum hans.

6. gr.

Leyfileg notkun á munaðarlausum verkum

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um undanþágur eða takmarkanir á rétti til að gera eintök og rétti til að gera efni aðgengilegt almenningi sem kveðið er á um, eftir því sem við á, í 2. og 3. gr. tilskipunar 2001/29/EB, til að tryggja að stofnanirnar sem um getur í 1. mgr. 1. gr. hafi heimild til að nota munaðarlaus verk sem geymd eru í söfnum þeirra á eftirfarandi hátt:
a)     með því að gera munaðarlaus verk aðgengileg almenningi í skilningi 3. gr. tilskipunar 2001/29/ EB,
b)     með eintakagerð í skilningi 2. gr. tilskipunar 2001/29/EB að því er varðar stafvæðingu, aðgengileika, skrásetningu, skráningu, varðveislu og endurheimt.
2.     Stofnanirnar, sem um getur í 1. mgr. 1. gr., skulu aðeins nota munaðarlaust verk í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar til að ná markmiðum er varða hlutverk þeirra í almannaþágu, einkum varðveislu á, endurheimt og framboð á safnkosti þeirra til menningar- og menntatengdrar notkunar. Stofnanirnar geta aflað tekna við þess háttar notkun, aðeins í því skyni að standa straum af kostnaði við stafvæðingu munaðarlausra verka og að gera þau aðgengileg almenningi.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að stofnanirnar, sem um getur í 1. mgr. 1. gr., tilgreini nöfn auðkenndra höfunda og annarra rétthafa við notkun munaðarlausra verka.
4.     Tilskipun þessi er með fyrirvara um samningafrelsi slíkra stofnana til að rækja hlutverk sín í almannaþágu, einkum að því er varðar samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila.
5.     Aðildarríkin skulu kveða á um að rétthafar sem afturkalla stöðu munaðarleysingja á verkum sínum eða öðru vernduðu efni fái sanngjarnar bætur fyrir notkun stofnananna, sem um getur í 1. mgr. 1. gr., á slíkum verkum og öðru vernduðu efni í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar. Aðildarríkjunum skal vera frjálst að ákveða við hvaða aðstæður ákvarða má slíkar bótagreiðslur. Ákvarða skal fjárhæð bótanna innan þeirra marka sem sett eru með lögum Evrópusambandsins og lögum aðildarríkisins þar sem stofnanirnar, sem nota munaðarlausa verkið, hafa staðfestu.

7. gr.

Áframhaldandi beiting annarra lagaákvæða

Tilskipun þessi skal ekki hafa áhrif á ákvæði sem varða einkum einkaleyfisréttindi, vörumerki, hönnunarrétt, smáeinkaleyfi, svæðislýsingar á hálfleiðaravörum, leturgerðir, skilyrtan aðgang, aðgang að kapli hljóðvarps- og sjónvarpsþjónustu, verndun þjóðarverðmæta, kröfur um skilaskyldu, lög um samkeppnishömlur og ójafna samkeppni, viðskiptaleyndarmál, öryggismál, trúnaðarmál, gagnavernd og einkalíf, aðgengi að opinberum gögnum, samningalög og reglur um prentfrelsi og tjáningarfrelsi í fjölmiðlum.

8. gr.

Beiting með tilliti til tímamarka

1.     Tilskipun þessi skal gilda að því er varðar öll verk og hljóðrit sem um getur í 1. gr. og njóta verndar löggjafar aðildarríkjanna á sviði höfundaréttar 29. október 2014 eða síðar.
2.     Tilskipun þessi gildir með fyrirvara um gerðir sem samþykktar voru og réttindi sem tilkomin voru fyrir 29. október 2014.

9. gr.

Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 29. október 2014. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ákvæða.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða meðfylgjandi slík tilvísun þegar þau eru birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

10. gr.

Endurskoðunarákvæði

Framkvæmdastjórnin skal fylgjast stöðugt með þróun á heimildum fyrir upplýsingar um réttindi og skal leggja fram skýrslu fyrir 29. október 2015, og árlega eftir það, um hvort einnig ætti að skrá innan gildissviðs þessarar tilskipunar útgefendur og verk eða annað verndað efni, sem ekki er innan gildissviðs hennar nú þegar, einkum stakar ljósmyndir og aðrar myndir.
Eigi síðar en 29. október 2015 skal framkvæmdastjórnin leggja fyrir Evrópuþingið, ráðið og efnahags- og félagsmálanefnd Evrópusambandsins skýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar, í ljósi þróunar stafrænna bókasafna.
Framkvæmdastjórnin skal, þegar nauðsyn krefur og einkum til að tryggja starfsemi innri markaðarins, leggja fram tillögur um breytingu á þessari tilskipun.
Aðildarríki, sem hefur gildar ástæður til að telja að framkvæmd þessarar tilskipunar hamli innlendri tilhögun að því er varðar umsýslu réttinda, sem um getur í 5. mgr. 1. gr., er heimilt að leggja málið með öllum viðeigandi upplýsingum fyrir framkvæmdastjórnina. Framkvæmdastjórnin skal taka tillit til slíkra sönnunargagna þegar hún semur skýrsluna sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar og þegar hún leggur mat á hvort nauðsynlegt sé að leggja fram tillögur um breytingu á þessari tilskipun.

11. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

12. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 25. október 2012.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
M. SCHULZ A. D. MAVROYIANNIS
forseti. forseti.


VIÐAUKI


Heimildirnar, sem um getur í 2. mgr. 3. gr., ná yfir eftirfarandi:

1)         vegna útgefinna bóka:

         a)     skilaskylda, bókasafnsskrár og auðkennaskrár sem bókasöfn og aðrar stofnanir varðveita,

        b)     samtök útgefenda og höfunda í viðkomandi löndum,

        c)     núverandi gagnagrunnar og skrár, WATCH (e. Writers, Artists and their Copyright Holders), ISBN (e. International Standard Book Number) og gagnagrunnar sem skrá útgefnar bækur,

        d)     gagnagrunnar viðkomandi innheimtusamtaka rétthafa, einkum stofnana um rétt til eftirgerðar rita,

        e)     heimildir sem samþætta gagnagrunna og skráningarstofur af ýmsum toga, þ.m.t. VIAF (e. Virtual International Authority Files) og ARROW (e. Accessible Registries of Rights Information and Orphan Works),

2)         fyrir dagblöð, myndskreytt tímarit, tímarit og fagtímarit:

        a)     ISSN (e. International Standard Serial Number) fyrir reglubundna útgáfu,

        b)     skrásetning og skráning frá ritum og safnkosti bókasafna,

        c)     skilaskylda,

        d)     samtök útgefenda, höfunda og blaðamanna í viðkomandi landi,

        e)     gagnagrunnar viðkomandi innheimtusamtaka rétthafa, þ.m.t. samtaka um rétt til eftirgerðar rita,

3)         fyrir sjónlistaverk, þ.m.t. fagrar listir, ljósmyndun, myndskreytingar, hönnun, byggingarlist, skissur af seinni verkum og öðrum slíkum verkum sem eru í bókum, tímaritum, dagblöðum og tímaritum eða öðrum verkum:

        a)     heimildir sem um getur í 1. og 2. lið,

        b)     gagnagrunnar viðkomandi innheimtusamtaka rétthafa, einkum fyrir sjónlistir, og þ.m.t. samtaka um rétt til eftirgerðar rita,

        c)     gagnagrunnar myndabanka, þegar við á,

4)         fyrir hljóð- og myndmiðlaverk og hljóðrit:

        a)     skilaskylda,

        b)     samtök framleiðenda í viðkomandi löndum,

        c)     gagnagrunnar í varðveislustofnunum mynd- og hljóðefnis og þjóðarbókasöfnum,

        d)     gagnagrunnar og viðeigandi staðlar og auðkennisbúnaður eins og ISAN (e. International Standard Audiovisual Number) um hljóð- og myndmiðlunarefni, ISWC (e. International Standard Music Work Code) um tónlistarverk og ISRC (e. International Standard Recording Code) fyrir hljóðrit,

        e)     gagnagrunnar viðkomandi innheimtusamtaka rétthafa, einkum fyrir höfunda, listflytjendur, framleiðendur hljóðrita og framleiðendur efnis hljóð- og myndmiðla,

        f)     kreditlistar og aðrar upplýsingar sem birtast á umbúðum verksins,

        g)     gagnagrunnar viðkomandi samtaka sem eru í fyrirsvari fyrir sértækan rétthafaflokk.

________________________

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 299, 27.10.2012, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 2
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 3
(1)    Stjtíð. ESB C 376, 22.12.2011, bls. 66.
Neðanmálsgrein: 4
(2)    Afstaða Evrópuþingsins frá 13. september 2012 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum) og ákvörðun ráðsins frá 4. október 2012,
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. EB L 167, 22.6.2001, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 6
(1)    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 386/2012 frá 19. apríl 2012 um að fela samhæfingarskrifstofu innri markaðarins (vörumerki og hönnun) verkefni sem varða framfylgd hugverkaréttinda, þ.m.t. að setja saman Evrópska athugunarstöð um brot á hugverkaréttindum skipaða fulltrúum opinberra aðila og úr einkageiranum (Stjtíð. ESB L 129, 16.5.2012, bls. 1).