Kjörtímabil

Kjörtímabil alþingismanna er tímabilið sem umboð þingmanns til að starfa sem kjörinn fulltrúi á Alþingi varir. Kjósendur veita þingmönnum umboðið í alþingiskosningum og það gildir fram til næstu þingkosninga.

Frá stofnun ráðgjafarþingsins til 1920 var kjörtímabil allra alþingismanna sex ár en þegar landskjör var innleitt árið 1916 varð kjörtímabil hinna landskjörnu þingmanna 12 ár. Helmingur þeirra skyldi þó hverfa af þingi að liðnum sex árum og hlutkesti ráða því hverjir það yrðu. Við gildistöku nýrrar stjórnarskrár árið 1920 varð kjörtímabil allra landskjörinna þingmanna átta ár og jafnframt varð kjörtímabil kjördæmakjörinna þingmanna fjögur ár. Frá því að landskjör var aflagt árið 1934 hefur kjörtímabil allra þingmanna á Alþingi verið fjögur ár.