Kjördæmaskipulagið

Kjördæmi eru afmörkuð landsvæði sem mynda einn af grunnþáttum kosningakerfisins. Framboðslistar eru lagðir fram fyrir hvert og eitt kjördæmi þannig að kjósendur í sama kjördæminu geta valið á milli sömu framboðslistanna og kjörnir fulltrúar hljóta þar umboð sitt til þingsetu.

Kjördæmaskipulagið og fjöldi kjósenda í hverju þeirra liggur til grundvallar þegar þingsætum er úthlutað eftir þingkosningar. Þar sem kjördæmaskipulagið er ráðandi fyrir vægi atkvæða kjósenda hefur það mikil áhrif á það hvaða frambjóðendur fá sæti á þingi að loknum kosningum. Kjördæmaskipulagið er því meðal þess sem oft hefur orðið að deiluefni. Þegar gerðar voru á því verulegar breytingar kostuðu þær jafnan pólitísk átök og allar hafa þær þýtt málamiðlanir milli ólíkra sjónarmiða.

Myndirnar sem á eftir fara sýna afmörkun kjördæmanna og heildarfjölda alþingisþingmanna frá því að kjördæmaskipulag var fyrst innleitt og til samtímans. Ártölin gefa til kynna gildistíma hvers skipulags fyrir sig og miðast fyrra ártalið við þingkosningarnar þegar því var fyrst beitt og seinna ártalið við það ár þegar kjördæmaskipulagið var síðast í gildi.