Þingkosningar í fullvalda ríki

Fyrstu þingkosningar í fullvalda ríki fóru fram 15. nóvember 1919. Kjósendur gátu þá valið um 68 frambjóðendur, tvöfalt fleiri en kjördæmakjörnir þingmenn voru. Kjördæmi voru 25, ýmist ein- eða tvímenningskjördæmi. Þegar kosið var til Alþingis haustið 2017 voru kjördæmi sex en frambjóðendur 1.244. Frá því listakosningar voru teknar upp um allt land árið 1959 hefur fjöldi þeirra sem skipuðu framboðslista skipt hundruðum við hverjar kosningar.

Miklar breytingar hafa orðið á undirbúningi og framkvæmd þingkosninga frá 1919 og ekki síður á umfjöllun um þær og kjörsókn hefur breyst umtalsvert. Við þingkosningarnar 1919 neyttu 59% kjósenda kosningarréttar en árið 1953 var kjörsókn í fyrsta skipti 90% og fór í það hlutfall eða rétt yfir það í allnokkur skipti eftir það. Mikil kjörsókn hér á landi hefur þótt til marks um áhuga almennings á stjórnmálum. Ljósvakamiðlar, fyrst útvarp og síðan sjónvarp og loks Netið, urðu mikilvægur vettvangur umfjöllunar um stjórnmál almennt og kosningar sérstaklega og urðu efalaust til að vekja áhuga á starfsemi löggjafans og viðhalda honum. Alþingiskosningar og hin pólitíska umræða í aðdraganda þeirra vekja jafnan mikla athygli og fyrir mörgum er kjördagur í þingkosningum og þátttaka í þeim sterkasta birtingarmynd fulltrúalýðræðisins.

Árið 1959 var tekin upp ný kjördæmaskipting. Einmennings- og tvímenningskjördæmi lögðust af og hlutfallskosning varð allsráðandi. Á þessum vef er gerð grein fyrir því hvaða frambjóðendur náðu kjöri í öllum alþingiskosningum frá og með haustkosningunum 1959 en fram til þess er skýrt frá því hvaða stjórnmálasamtök fengu fulltrúa á þing í kosningum og hvert heildarfylgi þeirra varð en úrslitin eru ekki tengd einstökum þingmönnum. Upplýsingar um þá finnast hins vegar greiðlega í Alþingismannatali.

Alþingismenn voru 40 þegar kosið var til þings haustið 1919 en hafa verið 63 frá árinu 1987. Allir þingmenn sem settust á þing að loknum kosningunum 1919 voru karlar en í kosningunum 2017 voru konur 38,1% þingmanna. Enda þótt konur hafi aldrei orðið helmingur þingheims hafa kynjahlutföll á þingi breyst verulega á undanförnum áratugum. Konur voru 20% þingmanna eftir kosningarnar 1987 og hæst hefur hlutfall kvenþingmanna orðið eftir kosningarnar 2016, 47,6%. Upplýsingar um þetta eru í greininni Konur á Alþingi.