Kosningar til löggjafarþings með takmarkað löggjafarvald 1874–1918

Undir lok ársins 1870 samþykkti danska þingið lagafrumvarp dómsmálaráðherra um stöðu Íslands í danska ríkinu og fengu lögin því heitið stöðulög í daglegu tali Íslendinga. Þau tóku gildi 1. apríl 1871 og í þeim var ákvarðað að tiltekin málefni væru sérmál Íslands og lögð drög að íslenskum ríkissjóði.

Með stöðulögunum opnaðist leið til þess að stjórn samfélagsins og mótun færðist í ríkari mæli til innlendra stjórnvalda og forsendur þess styrktust enn frekar þegar fyrsta stjórnarskrá Íslands tók gildi 1. ágúst 1874.

Stjórnarskráin gerbreytti hlutverki og störfum Alþingis. Í stað þess að vera ráðgjafarþing varð Alþingi löggjafarþing sem gat sett lög um ýmis málefni sem snertu Ísland sérstaklega en ekki danska ríkið í heild. Ein hinna þriggja megingreina ríkisvaldsins, löggjafarvaldið, var upp frá þessu í höndum kjörinna fulltrúa á löggjafarsamkomu að talsverðu leyti. Vald Alþingis til lagasetningar takmarkaðist þó af því að Danakonungur hafði neitunarvald um lagasetningu. Það vald var í raun í höndum dönsku ríkisstjórnarinnar og því var alloft beitt. Alþingi gat einnig hafnað lagafrumvörpum frá ríkisstjórninni og gerði það stundum.

Enda þótt neitunarvald konungs takmarkaði valdsvið Alþingis og starfssvið þess væri bundið við fyrir fram skilgreinda málaflokka sem talin voru íslensk sérmál var tilkoma löggjafarþings sem starfaði í umboði kjósenda mikilvægt skref í íslenskri stjórnmálaþróun og innleiðingu lýðræðis.

Ráðgjafarþingið hafði starfað í einni málstofu. Allir þingmenn þess sóttu sömu þingfundina. Með tilkomu stjórnarskrárinnar breyttist þetta þannig að Alþingi starfaði í tveimur deildum, efri og neðri deild, og einnig komu þingmenn allir saman á einum fundi. Þá var talað um fund í sameinuðu þingi.

Alls sátu 36 þingmenn á Alþingi eftir gildistöku stjórnarskrárinnar árið 1874, 12 áttu sæti í efri deild en 24 í neðri deild. Voru 30 þeirra þjóðkjörnir en 6 konungkjörnir og var heimilt að breyta tölu hinna þjóðkjörnu þingmanna með almennum lögum. Allir þingmenn í neðri deild voru kosnir í almennum þingkosningum og helmingur þeirra sem sátu í efri deild. Hinn helmingur þingmanna í efri deild var konungkjörinn sem þýddi að þeir voru valdir til setu á þinginu af fulltrúa danskra stjórnvalda og komu yfirleitt úr röðum embættismanna. Þannig tryggði framkvæmdarvaldið sér áhrif á löggjafarstörf þingsins. Konungurinn hafði einnig fullt neitunarvald og gat hafnað lögum sem Alþingi hafði samþykkt.

Ekki voru lengur kjörnir varaþingmenn og varð því að láta kosningar fara fram ef þingmaður féll frá eða forfallaðist.

Alþingi skyldi koma saman fyrsta virkan dag júlímánaðar annað hvert ár og starfa í sex vikur en raunin varð að það starfaði yfirleitt nokkru lengur.

Ákveðið var með bráðabirgðaákvæði í stjórnarskránni frá 1874 að kjördæmaskiptingin sem hafði verið viðhöfð frá 1843 yrði látin halda sér en nú urðu fjölmennari sýslur tvímenningskjördæmi þar sem kjörnir voru tveir þingmenn en aðrar einmenningskjördæmi eins og verið hafði.

Alþingi setti lög um kosningar árið 1877. Kjördæmum var þá fjölgað um tvö þegar Þingeyjarsýslu og Skaftafellssýslu var skipt þannig að tvö kjördæmi urðu í hvorri sýslu en þingmannafjöldi breyttist ekki þar sem báðar sýslurnar höfðu áður verið tvímenningskjördæmi. Þessi skipan var óbreytt í aldarfjórðung, til 1902. Í 25. grein kosningalaganna frá 1877 var ákvarðað að alþingiskosningar skyldu að jafnaði fara fram í september árið áður en nýkjörið þing kæmi saman. Raunin varð sú að kosningar voru ýmist haldnar vor eða haust. Breyting varð á þessu árið 1908 er kjördagur varð í fyrsta sinn hinn sami um allt land.

Kosið var til Alþingis með takmarkað löggjafarvald árin 1874, 1880, 1886, 1892, 1894, 1900, 1902, 1903, 1904, 1908, 1911, 1914 og tvisvar 1916.