Kjördæmaskipun á tímum ráðgjafarþinganna 1843–1874

Reglur um kjördæmi voru í tilskipun um stofnun Alþingis sem tók gildi 8. mars 1843 og áttu þær við þegar fyrstu alþingiskosningarnar fóru fram árið 1844. Sýslur landsins, 19 talsins, og Reykjavíkurkaupstaður mynduðu kjördæmin 20 og átti að kjósa einn þingmann í hverju þeirra ásamt varamanni. Það gekk ekki eftir. Enginn þingmaður var kjörinn fyrir Vestmannaeyjar af þeirri einföldu ástæðu að „einginn gat kosið“ eins og komist var að orði í lýsingu á fyrstu setningu hins ráðgefandi Alþingis og stafaði það af því að enginn sýslubúa uppfyllti skilyrðin sem sett voru fyrir kosningarrétti. Fyrir vikið var eitt kjördæma landsins þingmannslaust þar til að loknum þingkosningum árið 1857.

Fólksfjöldi í sýslunum var mjög mismunandi og þar sem hver þeirra hafði aðeins einn fulltrúa var mikill munur á vægi atkvæða. Sá munur er enn mikill milli kjördæma og hefur ávallt verið. Er því ójafnt vægi atkvæða meðal einkenna íslenska kosningakerfisins fyrr og síðar.

Sýslurnar voru einnig misjafnlega víðáttumiklar og sökum þess að einungis einn kjörstaður var í hverju kjördæmi, nema í Skaftafellssýslu þar sem þeir voru tveir frá upphafi, gat munað miklu á aðstöðu kjósenda til að neyta kosningarréttar.

PNG.1Mynd 1 (1844 og 1852). Þegar alþingiskosningar fóru fram í fyrsta skipti árið 1844 voru kjördæmin 20 talsins, öll einmenningskjördæmi. Sýslur landsins og Reykjavíkurkaupstaður mynduðu kjördæmin. Þessi kjördæmaskipan var óbreytt þegar kosið var til Alþingis árið 1852. Henni var einnig fylgt árið 1850 þegar kjörnir voru fulltrúar á þjóðfundinn sem haldinn var í Reykjavík árið 1851. Í þeim kosningum voru þó kjörnir tveir fulltrúar í öllum kjördæmum.

PNG.2Mynd 2 (1858–1869). Árið 1857 var Skaftafellssýslu skipt í tvö kjördæmi. Kjördæmakjörnum þingmönnum fjölgaði þá um einn og voru þeir 21 til loka ráðgjafarþinganna en tala konungkjörinna þingmanna hélst óbreytt. Kjördæmaskipanin sem tók gildi 1857 átti við í alþingiskosningum árin 1858, 1864 og 1869. Tekið var upp meirihlutakjör sem þýddi að þingmaður varð að fá meiri hluta atkvæða á kjörfundi til að ná kjöri. Þetta gat þýtt að kjósa þyrfti í allt að þremur umferðum til að fá úr því skorið hver yrði þingmaður kjördæmisins. Meirihlutakjöri var síðast beitt í þingkosningum 1903.