Kjördæmaskipan á tímum Alþingis með takmarkað löggjafarvald 1874–1918

Kjördæmi voru 19 samkvæmt stjórnarskránni frá 1874 og byggðist afmörkun þeirra á sýslu- og bæjarmörkum eins og hin fyrri hafði gert. Þessari kjördæmaskipan var breytt árið 1877 en eftir það var kjördæmaskipulagið óbreytt til 1903.

Brugðist var við þéttbýlismyndun og breytingum á búsetumynstri í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. með því að fjölga kjördæmum. Stærstu bæirnir voru gerðir að sérstökum kjördæmum árið 1903 og urðu kjördæmin þá alls 25.

Konungkjör þingmanna var afnumið árið 1915 og landskjör innleitt þess í stað. Landið varð allt eitt kjördæmi við landskjör og hlutfallskosningu beitt.

MYND-3.1874Mynd 3 (1874). Kjördæmaskipanin sem innleidd var með fyrstu stjórnarskrá Íslands árið 1874 byggðist á sýslu- og bæjarmörkum eins og hin fyrri hafði gert en brugðist var við mismunandi fólksfjölda í kjördæmunum með því að gera sum þeirra að tvímenningskjördæmum. Eftir gildistöku stjórnarskrárinnar voru meginreglur um alþingiskosningar í henni en áður höfðu þær verið settar af danska stjórnkerfinu með atbeina íslenskra embættismanna og þingmanna á ráðgjafarþinginu. Kjördæmaskipanin frá 1874 var aðeins í gildi óbreytt í þingkosningum það ár.

MYND4.1880-1902-minMynd 4 (1880–1902). Kjördæmaskipaninni frá 1874 var breytt árið 1877. Þingeyjarsýslu og Skaftafellssýslu var þá skipt þannig að tvö einmenningskjördæmi urðu í hvorri sýslu. Breytingin hafði fyrst áhrif í þingkosningum 1880 og síðast átti skipulagið sem komst á með henni við í alþingiskosningum árið 1902.

MYND5.-1903-minMynd 5 (1903). Kjördæmaskipan breyttist ekki frá 1877 þar til Ísafjarðarsýslu var skipt í tvö einmenningskjördæmi með lögum nr. 36/1902. Kjördæmin urðu 22 eftir þessa breytingu sem hafði fyrst áhrif í alþingiskosningunum sem fóru fram í júní 1903. Þessi kjördæmaskipan átti aðeins við í alþingiskosningunum þetta ár.

MYND6.1904-1916-minMynd 6 (1905–1916). Með lögum nr. 19/1903 voru þrír kaupstaðir, Ísafjörður, Akureyri og Seyðisfjörður, gerðir að sérstökum einmenningskjördæmum en Reykjavík varð tvímenningskjördæmi. Breytingin hafði fyrst áhrif í þingkosningum sem fóru fram 10. september 1904 í kjördæmunum fjórum þar sem jafnmargir þingmenn voru kjörnir. Þeir tóku sæti á Alþingi þegar það var sett 1. júlí 1905. Alþingismönnum fjölgaði þá um fjóra og urðu 40. Meirihlutakjör var lagt niður og tengdist sú ráðstöfun fjölgun kjörstaða og leynilegum kosningum sem komu fyrst til framkvæmda árið 1908.

MYND7.-LANDSKJOR-1916-1930-min

Mynd 7 (1916–1930). Konungkjör alþingismanna var afnumið með stjórnarskrárbreytingu árið 1915. Upp frá því hafa allir þingmenn á Alþingi verið þjóðkjörnir. Í stað konungkjörnu þingmannanna sex komu jafnmargir landskjörnir þingmenn sem kosnir voru hlutfallskosningu í einu kjördæmi sem tók yfir allt landið. Eins og hinir konungkjörnu áttu landskjörnir þingmenn sæti í efri deild Alþingis. Landskjör fór fram í fjögur skipti, árin 1916, 1922, 1926 og 1930. Beitt var d’Hondt-reglu við úthlutun þingsæta í landskjöri.