Alþingiskosningar 1908

Þessar alþingiskosningar sættu verulegum tíðindum. Kosningar voru leynilegar í fyrsta skipti, þ.e. kjósendur greiddu atkvæði í einrúmi, notaðir voru kjörseðlar í stað þess að kjósendur lýstu vali sínu munnlega og í fyrsta sinn var einn og sami kjördagurinn um allt land. Kjörstaðir voru einnig til mikilla muna fleiri en áður. Einn kjörstaður var nú í hverjum hreppi en fram til þessa hafði einungis verið einn kjörstaður í hverju kjördæmi.

Skilyrði fyrir kosningarrétti höfðu ekki breyst frá 1857 en voru nú rýmkuð nokkuð. Enn gátu þó aðeins karlar kosið sem ekki voru vistráðnir hjá öðrum. Breytingarnar á skilyrðum fyrir kosningarrétti í 6. gr. laga nr. 16/1903, um breyting á stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands, fólust í því að slakað var á kröfum um efnahag með því að upphæð útsvars sem krafist var að kjósendur greiddu var lækkuð í 4 kr. fyrir alla en hafði áður verið 8 kr. á ári fyrir kaupstaðarborgara en 12 kr. fyrir þurrabúðarmenn. Menn í þessari stöðu bjuggu í bæjum og þorpum landsins og jókst hlutfall kjósenda í þéttbýlisstöðum því við breytinguna.

Kosningaaldur varð 25 ár en hafði verið 30 ár áður.

Kjörsókn jókst stórum, úr 53,4% árið 1903 í 75,7%. Var það bæði vegna rýmkunar á skilyrðum fyrir kosningarrétti og betra aðgengis að kjörstað og einnig sökum þess að höfuðmálefni kosninganna átti hug almennings en það var uppkastið svonefnda sem var frumvarp til laga um ný lög um samband Íslands og Danmerkur.

 Um kosningarnar
Kjördagur 10. september 1908
Mannfjöldi 82.925
Kjósendur á kjörskrá 11.726
Hlutfall kosningarbærra af heildarmannfjölda 14,1%
Greidd atkvæði 8.486
Kosningaþátttaka 75,7%
Hlutfall kjósenda af heildarmannfjölda 10,2%
Kosningaþátttaka karla 75,7%
Kosningaþátttaka kvenna 0%
Kjördæmakjörnir þingmenn 34
Konungkjörnir þingmenn 6
Heildarfjöldi þingmanna 40
Kjördæmi og þingmenn 1908
Reykjavík 2
Gullbringu- og Kjósarsýsla 2
Árnessýsla 2
Rangárvallasýsla 2
Vestmannaeyjar 1
Vestur-Skaftafellssýsla 1
Austur-Skaftafellssýsla 1
Suður-Múlasýsla 2
Seyðisfjarðarkaupstaður 1
Norður-Múlasýsla 2
Norður-Þingeyjarsýsla 1
Suður-Þingeyjarsýsla 1
Eyjafjarðarsýsla 2
Akureyri 1
Skagafjarðarsýsla 2
Húnavatnssýsla 2
Strandasýsla 1
Norður-Ísafjarðarsýsla 1
Ísafjarðarkaupstaður 1
Vestur-Ísafjarðarsýsla 1
Barðastrandarsýsla 1
Dalasýsla 1
Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla 1
Mýrasýsla 1
Borgarfjarðarsýsla 1