Alþingiskosningar 1923

Með lögum nr. 11/1920, um þingmannakosning í Reykjavík, var þingmönnum Reykjavíkur fjölgað um tvo og urðu þeir fjórir eftir breytinguna. Heildarfjöldi þingmanna á Alþingi varð þá 42. Einnig var tekin upp hlutfallskosning í Reykjavíkurkjördæmi.

Með lögum nr. 17/1922 var Húnavatnssýslu skipt í tvö einmenningskjördæmi: Austur-Húnavatnssýslu og Vestur-Húnavatnssýslu. Kjördæmum fjölgaði um eitt, urðu 26, en þingmannatala breyttist ekki.

Samkvæmt 27. grein stjórnarskrárinnar frá 1920 varð kjörtímabil þingmanna fjögur ár í stað sex áður og hefur það haldist óbreytt síðan.

Aldurstakmark við þingkosningar var nú hið sama, 25 ár, fyrir alla kjósendur, án tillits til kynferðis, eða þjóðfélagsstöðu. Enn gilti þó sú regla að fólk sem stóð í skuld við sveitarsjóð vegna sveitarstyrks sem það hafði fengið naut ekki kosningarréttar.

Enn var flokkakerfið í mótun og setti það mark sitt á þingkosningarnar haustið 1923. Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn birtust sem mótaðir stjórnmálaflokkar á vinstri væng stjórnmálanna og andstæðingar þeirra komu sér saman um bandalag gegn þeim sem ekki fékk formlegt heiti en var af flestum nefnt Borgaraflokkur og heitir svo í kosningaskýrslum. Meginhlutverk Borgaraflokksins var að hindra að vinstri flokkarnir næðu meiri hluta á þingi og þótt það markmið næðist varð ekki af því að þingflokkur yrði myndaður á grundvelli kosningabandalagsins og ekki tókst að mynda stjórnmálaflokk á grunni þess.

Um kosningarnar
Kjördagur 27. október 1923
Mannfjöldi 96.386
Kjósendur á kjörskrá 43.932
Hlutfall kosningarbærra af heildarmannfjölda 45,2%
Greidd atkvæði 31.146
Kosningaþátttaka 75,6%
Hlutfall kjósenda af heildarmannfjölda 32,3%
Kosningaþátttaka karla 83,7%
Kosningaþátttaka kvenna 68,4%
Kjördæmakjörnir þingmenn 36
Landskjörnir þingmenn 6
Heildarfjöldi þingmanna 42
Kosningaúrslit – kjördæmakjörnir þingmenn
Gild atkvæði 30.362
Borgaraflokkur   53,6%  21 þingmaður
Framsóknarflokkur   26,6%  13 þingmenn
Alþýðuflokkur 16,2% 1 þingmaður
Utan flokka 3,7% 1 þingmaður
Kjördæmi og þingmenn 1923
Reykjavík 4
Gullbringu- og Kjósarsýsla 2
Árnessýsla 2
Rangárvallasýsla 2
Vestmannaeyjar 1
Vestur-Skaftafellssýsla 1
Austur-Skaftafellssýsla 1
Suður-Múlasýsla 2
Seyðisfjarðarkaupstaður 1
Norður-Múlasýsla 2
Norður-Þingeyjarsýsla 1
Suður-Þingeyjarsýsla 1
Eyjafjarðarsýsla 2
Akureyri 1
Skagafjarðarsýsla 2
Austur-Húnavatnssýsla 1
Vestur-Húnavatnssýsla 1
Strandasýsla 1
Norður-Ísafjarðarsýsla 1
Ísafjarðarkaupstaður 1
Vestur-Ísafjarðarsýsla 1
Barðastrandarsýsla 1
Dalasýsla 1
Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla 1
Mýrasýsla 1
Borgarfjarðarsýsla 1