Alþingiskosningar 1922 – landskjör

Landskjörnir þingmenn, sex talsins, voru fyrst kjörnir sumarið 1916. Kjörtímabilið var 12 ár en helmingur landskjörinna þingmanna skyldi þó hverfa af þingi eftir sex ár og réð hlutkesti því hvaða þingmenn það voru. Sumarið 1922 var komið að því að kjósa þrjá þingmenn í stað þeirra sem þá hurfu af þingi og fór landskjör fram 8. júlí. Í stjórnarskránni frá 1920 var bráðabirgðaákvæði þess efnis að kjörtímabil landskjörinna þingmanna skyldi vera átta ár í stað 12 áður og að umboð landskjörinna þingmanna sem kosnir voru sumarið 1916 félli úr gildi árið 1926.

Aldurstakmark í landskjörinu 1922 var 35 ár og átti það við um bæði karla og konur.

Fimm framboðslistar stóðu kjósendum til boða við landskjörið sumarið 1922: Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur, Heimastjórnarmenn, Kvennalisti og Sjálfstæðismenn. Kosningarnar mörkuðu tímamót þar sem í þeim var fyrsta konan kjörin til setu á Alþingi.

Um kosningarnar
Kjördagur 8. júlí 1922
Mannfjöldi 95.180
Kjósendur á kjörskrá 29.092
Hlutfall kosningabærra af heildarmannfjölda 30,5%
Greidd atkvæði 11.962
Kosningaþátttaka 41,1%
Hlutfall kjósenda af heildarmannfjölda 12,6%
Kosningaþátttaka karla 52,7%
Kosningaþátttaka kvenna 32,2%
Kjörnir þingmenn 3
Kosningaúrslit – landskjörnir þingmenn
Gild atkvæði 11.794
Heimastjórnarmenn 27,6% 1 þingmaður
Framsóknarflokkur 27,1% 1 þingmaður
Kvennalisti 22,7% 1 þingmaður
Alþýðuflokkur 17,2%
Sjálfstæðismenn 5,4%